„Mér líður vel. Ég er spenntur og hlakka til,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund fyrir síðari úrslitaleik liðsins gegn Porrino frá Spáni í Evrópubikarnum á Hlíðarenda á morgun.
„Við erum búin að hvíla okkur vel í bland við æfingar og fundi í vikunni. Við höfum reynt að hafa frekar lágan prófíl. Svo snýst þetta bara um að við náum að stilla okkur vel af fyrir morgundaginn,“ sagði Ágúst.
Fyrri leiknum í Porrino síðastliðinn laugardag lauk með jafntefli, 29:29. Spurður hvort biðin eftir síðari leiknum hafi verið erfið sagði hann:
„Já og nei. Maður er náttúrlega búinn að vera með þennan leik í hausnum alla vikuna. En við höfum beðið aðeins með að funda þar til styttist í verkefnið. Það er alveg búið að vera þannig.
Að sama skapi er ágætt að hafa góðan tíma og melta þetta aðeins. Við teljum okkur vera komin með ágætis mynd af þessu og erum að smíða gott leikplan fyrir leikinn á morgun sem vonandi skilar því sem við viljum, sigri.“
Ágúst minntist á mikilvægi þess að fá fulla höll og góðan stuðning á Hlíðarenda á morgun.
„Við spiluðum úti fyrir framan 2.400 manns í húsi sem er örugglega með leyfi fyrir 1.800 manns. Það var brjálað að spila þarna. Svona viðburður, ég er ekkert viss um að maður eigi að upplifa hann aftur á sinni lífsleið.
Ég vona að það fjölmenni hér allir íþróttaáhugamenn úr öllum íþróttum og komi og taki þátt í þessu. Dagskráin hérna er frábær og þessi viðburður er risastór. Ég get lofað því að mitt lið mun koma hingað til leiks á morgun og leggja sig 100 prósent fram.
Ég er sannfærður um það að við náum í góð úrslit og ég vona innilega að fólk styðji við bakið á liðinu og hjálpi því að komast yfir þennan hjalla,“ sagði hann.