Draumur sem ég bjóst aldrei við að yrði að veruleika

Ágúst, lengst til vinstri, fagnar með leikmönnum sínum.
Ágúst, lengst til vinstri, fagnar með leikmönnum sínum. mbl.is/Hákon

„Ég á erfitt með að koma orði að þessu,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Evrópubikarmeistari, fyrsta allra íslenskra kvennaliða.

„Þetta er stærsti sigurinn í íslenskum kvennahandbolta og íslenskum kvennaíþróttum. Ég er svo stoltur af þessum stelpum og liðinu.

Ég hætti með þær eftir tímabilið og að geta kvatt þær með Evróputitli er draumur sem ég bjóst aldrei við að yrði að veruleika,“ sagði Ágúst hrærður í leikslok.

Valur náði sjö marka forskoti þegar skammt var eftir en vann að lokum með einu marki eftir mikið áhlaup frá Porrino.

„Ég var að pæla í að taka leikhlé. Við vorum sjálf okkur verst og vorum klaufar. Við fengum færi sem við fórum illa með og það var óþarfaspenna. Ég var stressaður en við kláruðum þetta og vorum betri aðilinn,“ sagði Ágúst.

En hvernig var að heyra lokaflautið og vita að Evrópubikarinn væri í höfn. „Ég get ekki lýst því. Ég á eftir að melta þetta og það tekur tvo daga.“

Stuðningsmenn Vals troðfylltu Hlíðarenda í dag.

„Ég er gríðarlega þakklátur öllu fólkinu sem mætti. Ég er stoltur. Kvennahandboltinn er á uppleið og ég er búinn að berjast í þessum kvennabolta í tíu ár og ég er ótrúlega stoltur,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert