Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Þessar konur sem hér takast á hafa verið til umfjöllunar í íþróttafréttum að undanförnu.
Lovísa Thompson er í liði Vals sem getur í dag orðið Evrópumeistari í handknattleik þegar liðið leikur síðari úrslitaleikinn gegn spænska liðinu Porrino í Evrópubikarnum á Hlíðarenda klukkan 15.
Steinunn Björnsdóttir tilkynnti á dögunum að hún hefði ákveðið að láta gott heita í íþróttinni eftir að hafa verið í lykilhlutverki hjá landsliðinu og Fram þegar hennar hefur notið við.
Myndin er tæplega ellefu ára gömul eða frá því í október 2014 þegar Grótta tók á móti Fram á Seltjarnarnesi. Steinunn sækir að marki Gróttu en Lovísa tekur hraustlega á móti í vörninni. Báðar eru þær raunar þekktar fyrir að vera góðir og klókir varnarmenn. Myndina tók Golli sem myndaði í áratugi fyrir mbl.is og Morgunblaðið.
Þótt Lovísa sé einungis á 26. aldursári þá er engu að síður til svo gömul mynd af henni í leik í meistaraflokki. Lovísa var enn í skyldunáminu þegar hún kom fram á sjónarsviðið með öflugu liði Gróttu og var á svipuðum tíma að ljúka samræmdu prófunum og tryggja Gróttu sigur á Íslandsmótinu með sigurmarki vorið 2015. Lovísa skoraði tvívegis í fyrri úrslitaleiknum á Spáni í Evrópubikarnum.
Þær Lovísa og Steinunn hafa mæst í ófáum mikilvægum leikjum þar sem lið þeirra hafa oft barist um bikarana sem í boði eru. Fram í tilfelli Steinunnar en Grótta og Valur í tilfelli Lovísu. Fari svo að Steinunn verði ekki dregin inn inn á gólfið í handboltanum á nýjan leik í framtíðinni þá hafa þessar sigursælu konur tekist á í síðasta sinn á handboltavellinum.
Steinunn lék ekki með öðru félagsliði en Fram og lengi vel sem fyrirliði. Hún er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með liðinu og þrívegis valin Íþróttamaður Fram.
Steinunn var í liði Íslands í lokakeppni EM 2024 og lék 58 A-landsleiki. Þeir hefðu vafalaust getað orðið fleiri en meiðsli og barneignir spiluðu þar inn í.