„Þetta er ólýsanleg tilfinning,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hún varð Evrópubikarmeistari með liðinu með sigri á Porrino frá Spáni á heimavelli.
Valur var með sjö marka forskot þegar skammt var eftir en vann að lokum með einu marki eftir mikið áhlaup frá spænska liðinu.
„Mér leið allt í lagi. Við vorum með tökin einhvern veginn allan tímann. Þær fóru svo í maður á mann sem getur verið bras og svo fengum við brottvísanir. Þetta var svolítið risky en við náðum að loka þessu.“
Leiknum lauk þegar Þórey Anna Ásgeirsdóttir fékk að halda á boltanum í fimm sekúndur í innkasti á meðan leiktíminn rann út.
„Þetta var ótrúlegt. Ég var með Þóreyju í innkasti og ég horfði á hana og trúði þessu ekki. Þetta var geggjað. Við leggjum ógeðslega hart að okkur. Allar þessar æfingar, fundir og ég veit ekki hvað og hvað,“ sagði hún.
Elín ætlar að njóta þess að horfa á Júróvision í sigurvímu.
„Þetta er nýi uppáhalds dagurinn minn. Við fylgjumst með Væb en við vorum annars ekki komnar lengra. Við vorum bara að hugsa um að landa þessum titli og næsta skref var að plana Júróvisionpartí,“ sagði Elín.