„Kannski síðasti titillinn hjá mörgum okkar saman“

Elín Rósa Magnúsdóttir í leik með Val.
Elín Rósa Magnúsdóttir í leik með Val. mbl.is/Karítas

Elín Rósa Magnúsdóttir, leikstjórnandi Vals í handknattleik, er þrátt fyrir ungan aldur margreynd. Fram undan er síðari úrslitaleikur liðsins gegn spænska liðinu Porrino í Evrópubikarnum.

Leikurinn fer fram á Hlíðarenda klukkan 15 í dag en fyrri leiknum í Porrino fyrir viku síðan lauk með jafntefli, 29:29.

Elín Rósa er 22 ára og hefur þegar tekið þátt í tveimur stórmótum með íslenska landsliðinu, EM 2024 og HM 2023. Sú reynsla nýtist henni vel.

„Já, mér finnst það algjörlega hjálpa, bara upp á spennustjórnun og að geta tekist á við erfiðar aðstæður þegar maður veit að það er mikið undir.

Þegar maður er að spila með Íslandi þá er allt þjóðarstoltið undir. Hérna er risastór bikar undir og auðvitað að gera þetta fyrir félagið og okkur stelpurnar.

Okkur langar ótrúlega mikið að vinna þetta saman. Það verða breytingar á næsta ári þannig að þetta er kannski síðasti titillinn hjá mörgum okkar saman,“ sagði Elín Rósa í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund á Hlíðarenda í gær.

Bjartsýn á sigur

Breytingarnar sem hún á við ná til dæmis til Elínar Rósu sjálfrar en hún er á leið til Blomberg-Lippe í Þýskalandi eftir tímabilið auk þess sem Hildigunnur Einarsdóttir er að leggja skóna á hilluna og Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari tekur við karlaliði Vals í sumar.

Spurð hvort hún væri bjartsýn á að Val takist að vinna Evrópubikarinn á heimavelli í dag sagði Elín Rósa:

„Ég er það. Þetta snýst mjög mikið um okkur sjálfar. Þegar við dettum niður eru þær ógeðslega góðar.

Þær eru náttúrlega mjög góðar, annars væru þær ekki komnar í úrslit, bara eins og við. Þetta snýst mikið um okkar leik, hvernig við stillum okkur inn á þetta, spennustjórnun og annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert