Næstbesti dagur lífs míns

Þórey Anna er Evrópubikarmeistari með Val.
Þórey Anna er Evrópubikarmeistari með Val. mbl.is/Hákon

„Ég veit ekki hvernig mér líður núna,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hún varð Evrópubikarmeistari með liðinu með sigri á Porrino frá Spáni á Hlíðarenda í dag.

„Maður er enn að meðtaka þetta en samt er maður ótrúlega glaður og þreyttur. Ég er ótrúlega ánægð með þetta,“ sagði Þórey.

Hún hélt á boltanum í heilar fimm sekúndur að reyna að taka innkast þegar leiktíminn rann út og eins marks sigur Vals varð staðreynd.

„Jesús minn! Ég horfði á klukkuna og sá fimm sekúndur eftir. Ég hugsaði að ég gæti ekki hangið á boltanum í fimm sekúndur. En svo endaði þetta þannig,“ sagði hún kát.

Valur var með sjö marka forskot þegar skammt var eftir og hélt svo út þegar spænska liðið náði góðu áhlaupi í lokin.

„Þetta voru svakalega langar lokamínútur. Ég var farin að líta á klukkuna þegar það voru sjö mínútur búnar af seinni hálfleik. Ég var í þvílíku basli með sjálfa mig að reyna að einbeita mér að einni sókn í einu.

Einhvern veginn leitaði hugurinn alltaf aðeins lengra. Það getur orðið svolítið dauður tími þegar maður er í horninu,“ sagði Þórey, sem skilaði sínu mjög vel í dag og var markahæst með sex mörk.

„Þegar maður er í action þá er ekki mikið að hugsa um. Maður er líka með góða reynslu af vítalínunni og það er gaman að fara á hana.“

Hlíðarendi var troðfullur í dag og var Þórey þakklát fyrir stuðninginn.

„Þetta er ólýsanlegt og ég er ótrúlega þakklát fyrir að svona margir mættu. Það var þvílík mæting og þvílík umgjörð. Valur á stórt hrós skilið fyrir geggjaða umgjörð. Það var allt upp á tíu.“

Dagurinn í dag er næstbesti dagurinn í lífi Þóreyjar, enda ekki hægt að toppa fæðingu frumburðarins.

„Þetta er næsbesti dagur lífsins á eftir fæðinguna á syni mínum. Þetta er stærsti handboltaleikur sem ég hef spilað og þetta gefur manni mikið,“ sagði Þórey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert