Rússinn alveg á mörkunum að vera löglegur

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, telur sig vita hvað liðið þurfi að bæta frá fyrri úrslitaleik sínum gegn spænska liðinu Porrino í Evrópubikarnum.

Síðari úrslitaleikurinn fer fram á Hlíðarenda klukkan 15 í dag en fyrri leiknum lauk með jafntefli, 29:29.

„Númer eitt, tvö og þrjú finnst mér við eiga pínulítið inni varnarlega frá síðasta leik. Við vorum að láta skjóta of mikið yfir okkur. Línumaðurinn þeirra var að blokka okkur of mikið niður.

Þær eru með mjög öflugan rússneskan línumann sem er alveg á mörkunum að vera lögleg í mjög mörgum tilfellum. Við þurfum að sjá til þess að hún bindi okkur ekki niður, við þurfum að komast út í skytturnar,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is eftir blaðamannafund á Hlíðarenda í gær.

Einungis þrjú mörk úr hraðaupphlaupum

„Við vorum að fá allt of mörg vítaköst á okkur, níu vítaköst í síðasta leik, sem orsakast mikið af því að við vorum að spila of passífan varnarleik. Því þurfum við að mæta þeim aðeins betur.

Ef við náum því þá skorum við meira úr hraðaupphlaupum. Við erum með gott hraðaupphlaupslið en skoruðum bara þrjú mörk úr hraðaupphlaupum í síðasta leik og það er bara of lítið. Heilt yfir fannst mér sóknarleikurinn góður.

Þær voru fljótar að refsa þegar við vorum að tapa boltanum á slæmum tíma í seinni hálfleik og vorum ekki með markmann inn á. Við þurfum að fínpússa nokkra hluti. Ef við náum því þá er ég vongóður um að við náum góðri frammistöðu,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert