Valur Evrópubikarmeistari eftir háspennu

Valur varð í dag fyrsta íslenska kvennaliðið í sögunni til að vinna Evrópubikar en Valsliðið vann Porrino frá Spáni í seinni leik úrslitaeinvígis liðanna í Evrópubikarnum, 25:24, á heimavelli sínum á Hlíðarenda.

Liðin skildu jöfn, 29:29, í fyrri leiknum á Spáni og vann Valur einvígið því með samanlagt einu marki.

Porrino byrjaði betur og komst í 6:3 snemma leiks, eftir fimm mörk í röð. Í stöðunni 7:4 skoraði Valur sjö mörk í röð og komst fjórum mörkum yfir, 11:7.

mbl.is/Hákon

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði hálfleiksins og var munurinn í hálfleik þrjú mörk, 12:9. Hafdís Renötudóttir lék afar vel í markinu hjá Val, varði sjö skot og mörg þeirra úr afar góðum færum.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn betur og komst fimm mörkum yfir í fyrsta skipti í 16:11. Valskonur héldu frumkvæðinu næstu mínútur og var staðan 18:13 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Valur er Evrópubikarmeistari.
Valur er Evrópubikarmeistari. mbl.is/Hákon Pálsson

Valskonur náðu í kjölfarið sex marka forskoti í fyrsta skipti, 19:13, og svo sjö marka forskoti stuttu síðar, 21:14. Var munurinn sjö mörk þegar tíu mínútur voru eftir, 23:16.

Gestirnir neituðu að gefast upp, fóru í maður á mann og Valsliðið lenti í veseni. Var munurinn því aðeins tvö mörk þegar rúm mínúta var eftir, 24:22. Valur hélt hins vegar út og skráði nafn sitt í sögubækurnar.

Valur 25:24 Porrino opna loka
60. mín. Maider Barros (Porrino) skoraði mark Mínúta eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert