Hildigunnur hágrét: Er orðlaus og stolt

Hildigunnur kampakát í gær.
Hildigunnur kampakát í gær. mbl.is/Hákon

„Ég er orðlaus og stolt,“ sagði grátandi Hildigunnur Einarsdóttir leikmaður Vals í samtali við mbl.is eftir að hún varð Evrópubikarmeistari í handbolta með liðinu í gær.

„Ég er ótrúlega stoltur Valsari í dag. Ég er svo stolt af liðinu og hvernig við höfum gert þetta í vetur í Evrópu. Við erum ekki búnar að tapa leik og við höfum unnið alla heimaleikina.

Við erum búnar að vera ógeðslega góðar. Það er smásjokk að þetta sé búið og að þetta endi á besta mögulega vegu er algjör draumur. Ég þarf einhvern tímann að hætta að grenja.“

mbl.is/Hákon

Valur vann bikarinn í gær fyrir framan troðfullan Hliðarenda.

„Þetta er gæsahúð. Maður var svo mikið að njóta augnabliksins með fullt af fólki. Ég veit ekki hvaða lýsingarorð ég á að nota. Þetta var svo geggjað. Fyrir mig að enda Evrópu svona er fullkomið. Ég er svo stolt af liðinu, við spiluðum svo vel.

Ég fékk gæsahúð í upphitun. Ég vissi að þetta myndi gefa okkur það sem við þurftum til að klára þetta. Þetta gefur ótrúlega mikið og gaf okkur aukamanninn sem við þurftum,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert