Fram einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum

Valsmenn taka hressilega á Framaranum Reyni Þór Stefánssyni í leiknum …
Valsmenn taka hressilega á Framaranum Reyni Þór Stefánssyni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fram og Valur áttust við í öðrum leik sínum í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta í Úlfarsárdal í kvöld og lauk leiknum með 27:26 sigri Fram.

Staðan í einvíginu er því 2:0 og getur Fram tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á fimmtudag þegar liðin mætast í þriðja leiknum á Hlíðarenda.

Valsmenn byrjuðu leikinn vel í kvöld og komust 3:1 yfir í leiknum. Fram jafnaði síðan í 5:5 og komst yfir 6:5 með marki frá Reyni Þór Stefánssyni. Framarar leiddu síðan leikinn allt þangað til á 27. mínútu þegar Ísak Gústafsson jafnaði leikinn í stöðunni 14:14.

Valsmenn náðu síðan tveggja marka forskoti í stöðunni 16:14 en Fram jafnaði leikinn og komst yfir á síðustu sekúndu hálfleiksins. Staðan í hálfleik var 17:16 fyrir Fram.

Reynir Þór Stefánsson skoraði 5 mörk í fyrri hálfleik fyrir Fram en Arnór Máni Daðason varði 9 skot, þar af eitt víti.

Hjá Valsmönnum var Ísak Gústafsson einnig með 5 mörk og varði Björgvin Páll Gústavsson 8 skot, þar af eitt vítaskot.

Fram byrjaði seinni hálfleikinn og kom Erlendur Guðmundsson heimamönnum tveimur mörkum yfir í stöðunni 18:16. Fram gerði enn betur og náði 4 marka forskoti í stöðunni 20:16 en þá fyrst skoruðu Valsmenn í seinni hálfleik og minnkuðu muninn í 20:17.

Valsmenn minnkuðu muninn í 20:19 og 21:20. Fengu gestirnir mörg tækifæri til að jafna leikinn en Breki Hrafn Árnason sem kom í mark Fram í seinni hálfleik átti sannkallaðan stórleik og á þessum tímapunkti í leiknum var hann kominn með 8 varin skot.

Fram náði þriggja marka forskoti í stöðunni 23:20 en Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði þá fyrir Valsmenn. Varnarleikur Fram var feikilega sterkur í kvöld og það sem slapp í gegn náðu markverðirnir tveir að verja með fáum undantekningum. Þessu til rökstuðnings skal sagt að Valsmenn voru búnir að skora 5 mörk í leiknum þegar 20 mínútur voru búnar af seinni hálfleik.

Valsmenn reyndu allt sem í þeirra valdi stóð til að saxa niður forskot Fram en hið öfuga gerðist. Fram náði 5 marka forskoti í stöðunni 26:22 og sléttar 5 mínútur eftir af leiknum.

Valsmenn gerðu alvöru áhlaup á lokamínútum leiksins og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar 1:15 voru eftir af leiknum og staðan 27:26. Björgvin Páll Gústavsson varði sannkallað dauðafæri í kjölfarið og fengu Valsmenn tækifæri til að jafna þegar 28 sekúndur voru eftir af leiknum. Valsmönnum tókst ekki að skora úr sinni síðustu sókn og sigur Fram staðreynd.

Reynir Þór Stefánsson skoraði 8 mörk fyrir Fram. Arnór Máni varði 9 skot og Breki Hrafn 8 í marki heimamanna.

Hjá Val skoraði Ísak Gústafsson 5 mörk og varði Björgvin Páll 16 skot, þar af eitt víti.

Fram 27:26 Valur opna loka
60. mín. Fram er í sókn. 52 sekúndur eftir. Ef þeir skora er þetta búið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert