Rúnar Kárason, leikmaður Fram og þaulreyndur handboltamaður, ætlar sér að verða Íslandsmeistari með Fram á þessu ári. Hann var samt full hógvær þegar mbl.is tók hann tali strax eftir leik í kvöld og spurði hann hvort þetta væri ekki nánast komið hjá hans liði.
„Það er ekkert í hendi. Það er bara svoleiðis. Við þurfum að hafa mikið fyrir því að vinna næsta leik. Valur er ótrúlega reynt lið og eru búnir að gera þetta oftast af öllum liðum á síðustu árum. Það verður gífurlega erfitt að sækja sigur á þeirra heimavelli í næsta leik. Við þurfum að spila enn betur en í kvöld til að það takist.“
Ég sagði við Einar að Fram þurfi einn sigur á meðan Valur þarf þrjá sigra til að verða Íslandsmeistari. Hafandi séð Fram í vetur þá hlýtur að teljast mjög ólíklegt að Fram tapi þremur leikjum í röð á móti Val?
„Ég vil trúa því að það geti ekki gerst. En við þurfum þrjá sigra. Við erum komnir með tvo en við þurfum þrjá alveg eins og Valur. Maður er búinn að vera nógu lengi í handbolta til að vita að það er ekkert gefins í þessu. Það er ekkert í hendi fyrr en lokaflautið gellur og ég á ekki von á öðru en að við munum læra af mistökum okkar í undanúrslitunum þegar við töpuðum ansi sannfærandi á móti FH í þriðja leiknum. Okkur langar ekki að láta það gerast aftur. Við munum koma vel undirbúnir og sækja til sigurs á fimmtudag.“
Eitthvað sem þú vilt sjá fara betur í næsta leik hjá þínu liði?
„Færanýtingin var ekkert frábær. Björgvin var að verja vel. Þetta fór eins og maður átti von á. Það kom mikill varnarleikur eftir mikinn sóknarsamba í síðustu leikjum og ég veit að bæði lið voru ekkert ánægð með hversu mörg mörk þau fengu á sig. Ég á von á því að við munum sjá einbeittari leik í skotum. Núna er allt undir og þá mun líklega dragast aðeins úr tempóinu. Við þurfum bara að reyna safna kröftum og mæta tilbúnir til að keyra á þetta aftur,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is.