Það var engan bilbug að sjá á Óskari Bjarna Óskarssyni þjálfara Vals þrátt fyrir að lið hans sé nú 2:0 undir í einvíginu gegn Fram um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta.
Mbl.is ræddi við Óskar eftir ósigurinn gegn Fram, 27:26, í Úlfarsárdal í kvöld.
Þið eru komnir með bakið upp við vegginn fræga eftir naumt tap í kvöld. Er staðan orðin vonlítil fyrir ykkur?
„Nei, alls ekki. Staðan er samt þannig að hún er 2:0 og það gefur augaleið að það er aldrei gott. Það er nýr leikur á fimmtudaginn. Ég hefði klárlega viljað vinna í kvöld. Við vorum ekki nægilega mættir í fyrsta leik. Hér töpum við með einu í sveiflukenndum leik. Í sjálfu sér er bara ný orrusta á fimmtudag óháð úrslitunum í kvöld.
Við þurfum að tengja betur góðan varnarleik við góðan sóknarleik. Frammistaðan þarf að vera frábær á fimmtudag ætlum við okkur að koma þessu í oddaleik. Nú eru allir leikir úrslitaleikir þangað til þetta einvígi klárast.“
Vörn Vals var samt með ágætum í kvöld. 16 varðir boltar og 27 mörk á ykkur sem eru færri en síðast, ekki satt?
„27 mörk í staðinn fyrir 37 mörk. Það er jákvæð þróun. Þeir voru að hitta boltann í vinkilinn í byrjun og skora mörk sem eru bara óverjanleg í upphafi. Þeir eru með góða sóknarmenn. Síðan erum við að vaxa vel inn í leikinn og við áttum að vera með eins til tveggja marka forskot í hálfleik. Við vorum klaufar og sjálfum okkur verstir oft og tíðum sem gerir það að verkum að þeir fara með forskot í hálfleik. Sóknarlega var of mikið af óöguðum skotum þar sem við skjótum aðeins of snemma.
Ég tek ekkert af Frömurum sem eru frábærir. En við erum oft sjálfum okkur verstir. Síðan kemur Breki í markið hjá þeim í seinni hálfleik og ver alveg frábærlega oft og tíðum. Við komumst samt inn í þetta en hefðum þurft að koma þeim í alvöru pressu aðeins fyrr.“
Það hefur verið samt svolítið sá bragur á Valsmönnum í vetur að þegar þið komist í fínar stöður þá slakið þið á. Af hverju gerist það?
„Við getum bara ekkert þegar við slökum á. Við kannski höldum bara að við séum betri en við erum af því við höfum afrekað ýmislegt. Við þurfum bara að vera miklu agaðri og sóknarlega þarf að gera hlutina betur og gera þetta meira saman.
Varnarlega erum við fínir í kvöld en við þurfum bara að vera með meiri fókus.
Það vilja þetta allir hjá okkur. Síðan er spurning hvort liðið vilji þetta meira. Þetta er mikið kollurinn á mönnum líka. Síðan fannst mér halla örlítið á okkur í þessum leik og mér fannst það líka í síðasta leik. Kannski er það bara þannig að það er meiri orka í stuðningsfólki Fram og það hjálpar.
Ég held að stuðningsmenn Fram vilji þennan titil meira en stuðningsmenn Vals. Við vorum með frábæran viðburð á laugardag þar sem troðið var á Hlíðarenda. Við erum með fullt af leikjum á mörgum vígstöðvum sem eru forréttindi.
Nú er ekkert annað í boði en að koma þessu í oddaleik. Hver leikur er oddaleikur hjá okkur núna. Byrjum á fimmtudaginn og þá þurfum við allan þann stuðning sem hægt er að fá.“
Valsmenn eiga frábæra stuðningsmenn en það voru ansi fáir sem mættu hér í kvöld.
„Í annað skiptið í þessari úrslitakeppni er Valur að spila við Breiðablik í fótboltanum. Það er 20 stiga hiti úti og sól. Það er verið að gera grín að okkur með þessa mætingu. En við sýndum á laugardaginn hvað við getum og hvað gerist þegar við fyllum Hlíðarenda og styðjum liðin okkar.
Orkan á Hlíðarenda síðasta laugardag hjálpaði helling og nú biðjum við um sömu aðstoð við að koma okkur yfir þennan hjalla. Það vantar fleiri með Baldri bongó og Krissa og bekkjavinafélaginu. Síðan þurfum við að sýna frammistöðu líka á vellinum.“
Getur þú lofað stuðningsmönnum sigri ef þeir fylla Hlíðarenda á fimmtudag?
„Ef það verður uppselt á fimmtudag þá vinnum við pottþétt,“ sagði Óskar Bjarni í samtali við mbl.is.