Íslendingaliðið Alpla Hard tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum í úrslitakeppninni um austurríska meistaratitilinn í handbolta með útisigri á Aon Fivers í ótrúlegum öðrum leik í undanúrslitum.
Staðan eftir venjulegan leiktíma var 35:35 og skoruðu bæði lið níu mörk í tveimur framlengingum og réðust úrslitin því í vítakeppni.
Þar skoraði Alpla Hard úr átta vítaköstum gegn sjö og fór áfram. Fyrir vikið mætir liðið annaðhvort Krems eða Linz í úrslitum.
Tumi Steinn Rúnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Alpla Hard og nýtti ekki sitt víti í vítakeppninni. Hannes Jón Jónsson þjálfar liðið.