Þá vinnur þú ekki Val

Stefán Arnarson ræðir við sitt lið í kvöld.
Stefán Arnarson ræðir við sitt lið í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Arnarson þjálfari Hauka var ekki ánægður með hversu marga tapaða bolta hans lið var með gegn Val í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta í kvöld. Valur vann tveggja marka sigur og er yfir í einvíginu. Spurður nánar út í leikinn sagði Stefán þetta:

„Við erum að spila móti góðu Valsliði en við erum með alltof marga tapaða bolta í fyrri hálfleik og vorum að klikka á alltof mörgum dauðafærum. Eðlilega nær Valur þá forystu í leiknum enda gott lið.

Við náðum að minnka þetta niður tvö mörk í seinni hálfleik en komumst ekki lengra en það enda að spila á móti mjög góðum andstæðingi. Við getum samt klárlega gert betur og þurfum að gera það.“

Í fyrri hálfleik komast Haukar nokkrum sinnum í þá stöðu að geta jafnað en þá virtist koma óðagot á liðið og þær töpuðu boltanum. Það sama gerist þegar Lovísa Thompson fær rautt spjald en þá virðist sem Haukaliðið verði stressað og í stað þess að minnka muninn þá eykst hann. Hvað vantaði upp á hjá þínu liði?

„Vörnin var alls ekki nógu góð. Við þurfum að fá betri markvörslu í svona leikjum. Síðan þurfum við að halda boltanum betur og velja færin betur því við erum að klikka á alltof mörgum færum. Þú vinnur ekki Val með þessari skotnýtingu.“

Báru Haukar of mikla virðingu fyrir Val í kvöld?

„Við berum mikla virðingu fyrir Val. Valur er frábært lið. En við vitum líka að ef við spilum vel þá getum við unnið Val en við vorum bara ekki að spila nægilega vel. Við þurfum að spila betur til að ná í þennan titil,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert