Valur yfir í úrslitaeinvíginu

Lovísa Thompson sækir að marki Hauka í kvöld.
Lovísa Thompson sækir að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valskonur eru yfir í einvíginu gegn Haukum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta eftir 30:28-sigur á Hlíðarenda í kvöld. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari.

Valskonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og var ekki að sjá að liðið hafi verið að spila gríðarlega erfiðan úrslitaleik í Evrópubikarkeppninni á laugardag. Eins og fyrr segir náðu Valskonur undirtökunum í leiknum strax í upphafi og juku þær forskotið þegar líða tók á fyrri hálfleik.

Má þar helst þakka Hafdísi Renötudóttur sem varði hvert skotið á fætur öðru og var með 11 varin skot þegar fyrri hálfleik lauk.

Mestur var munurinn í stöðunni 14:10 fyrir Val en Haukar náðu að minnka muninn niður í 3 mörk með vítaskoti í lok hálfleiksins. Fram að því höfðu Haukakonur ekki skorað mark í 5 mínútur á undan.

Staðan í hálfleik var 14:11 fyrir Val.

Thea Imani Sturludóttir skoraði 5 mörk í fyrri hálfleik fyrir Val og varði Hafdís Renötudóttir 11 skot eins og áður segir.

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði 4 mörk, þar af 3 úr vítum fyrir Hauka og varði Sara Sif Helgadóttir 5 skot. Elísa Helga Sigurðardóttir varði 1 skot.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega og minnkuðu muninn niður í tvö mörk. Þannig hélst munurinn framan af eða allt þangað til Valskonur komust fjórum mörkum yfir í stöðunni 20:16.

Þegar rúmlega 12 mínútur voru til leiksloka fékk Lovísa Thompson rautt spjald fyrir brot á Elínu Klöru Þorkelsdóttur. Blóðtaka hefði maður haldið fyrir Valsliðið í ljósi þess að hún var búin að skora 6 mörk fram að þessu.

Eins og segir einhvers staðar að þá kemur maður í manns stað og það átti svo sannarlega við í þessu tilfelli því Áthildur Jóna Þórhallsdóttir kom gríðarlega sterk inn eftir þetta og raðaði inn mörkunum úr horninu ásamt því að Hafdís hélt áfram að verja fyrir Valskonur. Færðist markaskorun Valskvenna því bara í hornið í staðinn.

Haukakonur fóru að spila mjög framliggjandi vörn til að reyna stöðva markaskorun Vals. Það breytti engu því Valskonur juku bara muninn í lok leiksins og þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum var munurinn kominn í 5 mörk í stöðunni 27:22 fyrir Val.

Valskonur voru tveimur færri í lok leiks og nýttu Haukakonur þann tíma mjög illa því þrátt fyrir að skora mörk þá fengu þær ítrekað á sig mörk á móti. Unnu Valskonur því bæði sannfærandi og sanngjarnan sigur í kvöld.

Thea Imani Sturludóttir skoraði 7 mörk fyrir Val og varði Hafdís Renötudóttir 18 skot. 

Hjá Haukum var Elín Klara Þorkelsdóttir með 7 mörk, þar af 5 úr vítum. Sara Sif Helgadóttir varði 7 skot og Elísa Helga Sigurðardóttir varði 4 skot. 

Valur 30:28 Haukar opna loka
60. mín. Rakel Oddný Guðmundsdóttir (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert