Íslendingaliðið Kolstad tryggði sér sigur í úrslitakeppni karla í norska handboltanum í dag með því að vinna Elverum í öðrum úrslitaleik liðanna, 31:28, á heimavelli sínum í Þrándheimi.
Elverum varð norskur meistari með því að vinna úrvalsdeildina en Kolstad er meistari úrslitakeppninnar með því að vinna þetta einvígi 2:0 og hreppir sæti í Meistaradeildinni.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði þrjú mörk fyrir Kolstad í dag, Sveinn Jóhannsson tvö og Benedikt Gunnar Óskarsson eitt en Arnór Snær Óskarsson náði ekki að skora.