„Þegar leið á tímabilið fann ég að við gátum unnið þetta allt saman,“ sagði Magnús Öder Einarsson fyrirliði Fram í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta skipti í rúman áratug með sigri á Val í þriðja leik liðanna í úrslitum í kvöld.
„Við vorum alltaf að bæta okkur og þegar leið á tímabilið fóru menn að þroskast meira og meira. Þegar við lentum á veggjum eða lentum í vandræðum unnum við okkur alltaf úr þeim. Við vorum orðnir eins og vel smurð vél og allir voru með sín hlutverk á hreinu.
Í fyrsta leik fannst mér við með þá. Þetta var eins og að spila á heimavelli. Við misstum síðan forskotið niður í öðrum leik. Ég átti alveg eins von á því að fá fjórða leik í Úlfarsárdal en þegar það voru fimm mínútur eftir sigldum við þessu heim, eins og svo oft áður,“ sagði Magnús.
Framarar voru í meirihluta áhorfenda í kvöld og Magnús er þakklátur fyrir stuðninginn.
„Það voru fleiri Framarar hérna í dag. Við vorum búnir að fylla stúkuna löngu fyrir leik og ég heyrði bara í Frömurum í stúkunni. Ég er ofboðslega stoltur af Frömurum fyrir þennan stuðning,“ sagði hann.
Flestir í Framliðinu eru uppaldir og margir ungir. Það gerir afrekið enn sætara að mati Magnúsar.
„Þetta gefur þessum bikar og þessum titli aukavægi. Að gera þetta svona, spila á ungum og uppöldum leikmönnum. Það er ekki verið að eyða seðlum í einhverja gæja. Þetta er enn þá sætara svona,“ sagði hann.
Magnús er sjálfur Selfyssingur en kom til Fram í byrjun árs 2022. Það var ekki fyrir peningana, s.s.?
„Nei, nei, nei. Ég er í handbolta fyrir leikgleði og auðvitað fyrir titla núna,“ sagði Magnús.