Erum drullugóðir og bestir á Íslandi

Einar með gullmedalíuna um hálsinn í kvöld.
Einar með gullmedalíuna um hálsinn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Jónsson, þjálfari nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handbolta karla, grét í upphafi viðtals þegar mbl.is ræddi við hann nokkrum sekúndum eftir að Fram tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn.

Einar stóð við gefið loforð um að verða Íslandsmeistari á þessu tímabili. Einar hafði þetta að segja spurður út í þá tilfinningu að hafa landað þeim stóra með 3:0 sigri í einvíginu:

„Þetta er mjög blendið, rússíbani,“ sagði Einar, þurrkaði gleðitárin og hélt síðan áfram: „Spennufall, gleði, þetta er bara rússíbani. Stórkostlegt. Ég veit ekkert hvað ég á að segja við þig.“

Byrjum bara að tala um leikinn. Þið vinnið á lokasekúndu leiksins í jafnasta leik einvígisins. Staðreyndin er hins vegar sú að þið vinnið einvígið í þremur leikjum.

„Það er staðreyndin, hárrétt hjá þér. Við vorum bara betri á þessum krítísku tímapunktum í leikjunum. Valur er með frábært lið, besta þjálfara á Íslandi. Ég ber mikla virðingu fyrir Valsmönnum og þeirra starfi.

Við vorum alltaf yfir í lokin og það er það sem skiptir máli. Mér fannst við líka alltaf vera skrefinu á undan. Okkur leið vel í þessum leikjum. Við vorum betri en það er samt svo ógeðslega stutt á milli í þessu.“

Valsmenn hafa verið á mikilli sigurgöngu síðustu ár og unnið meðal annars Evrópumeistaratitil. Má ekki segja að í ljósi þess að Fram er að sækja sína fyrstu titla í langan tíma að þá hafi þitt lið kannski verið meira hungrað í þennan titil?

Stemning og stuð hjá Frömurum á Hlíðarenda í kvöld.
Stemning og stuð hjá Frömurum á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

„Það er erfitt að segja. Við erum búnir að spila 8 eða 9 leiki í úrslitakeppninni og tapa einum. Spiluðum þrjá til fjóra leiki í bikar og unnum alla. Þetta eru 12 - 13 úrslitaleikir í vetur. Allir unnir nema einn. Hungur og ekki hungur. Við erum drullugóðir og bestir á Íslandi. Það er staðreyndin.“

Þið vinnið tvo stóru titlana. Þetta hlýtur að uppfylla öll ykkar markmið á tímabilinu, ekki satt?

„Ég sagði reyndar bara að við ætluðum að vinna titil þannig að pressunni var aflétt með því að verða bikarmeistari. Við fundum samt þegar fór að líða á tímabilið að við gætum mjög auðveldlega uppfært okkar markmið. Menn voru staðráðnir í að keyra á þetta.

Rúnar Kárason sagði þegar Valsmenn hentu okkur út úr mótinu fyrir rúmu ári síðan, og við með alla okkar leikmenn meidda, að nú þyrftum við að nota sumarið vel og æfa almennilega til þess að verða Íslandsmeistarar. Það tókst.

Rúnar og Magnús Öder eru búnir að leiða þetta áfram eins og herforingjar. Þetta er búið að vera hans markmið frá því í fyrra og hann náði að smita því út í hópinn.“

Nú tekur væntanlega við kærkomið sumarfrí. Einar Jónsson verður væntanlega áfram þjálfari Fram?

„Ég verð nú varla rekinn úr þessu. Já, ég er með samning og verð áfram.“

Hvað með þína helstu hesta í liðinu?

„Reynir er að fara út og Tryggvi er að fara út. Allir aðrir eru held ég að vera áfram. Við erum ekki búnir að vera að fókusera á þetta en auðvitað erum við alltaf að hugsa eitthvað til framtíðar. Við erum líka með frábæra unga leikmenn sem þurfa að stíga upp og taka skrefið.“

Er þá ekki eðlilegt að næsta markmið sé að vinna alla þrjá titlana á næsta tímabili?

„Eigum við ekki bara að fagna þessu í dag og láta vera að ræða einhver markmið fyrir næsta tímabil. Ég ætla ekki að hugsa um handbolta fyrr en 15. eða 16. júní þegar við förum að æfa handbolta aftur. Þetta er bara komið gott og ég ætla að leyfa mér að fagna í svona mánuð allavegana,“ sagði Einar Jónsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert