FH-ingar sömdu við Túnisbúa

Med Khalil Chaouachi er genginn til liðs við FH.
Med Khalil Chaouachi er genginn til liðs við FH. Ljósmynd/FH

Handknattleiksdeild FH hefur samið við línumanninn Med Khalil Chaouachi um að leika með karlaliði félagsins næstu þrjú ár.

Chaouachi er 23 ára gamall Túnisbúi sem er í tilkynningu frá handknattleiksdeild félagsins lýst sem stórum og kraftmiklum línumanni. Hann hefur á ferlinum leikið í heimalandi sínu Túnis, Kósovó og Ungverjalandi.

Það er ekki tilviljun að Chaouachi komi hingað til lands en sambýliskona hans Szonja Szöke, ungverskur markvörður, gekk nýverið til liðs við kvennalið FH.

„Við erum virkilega spennt að taka á móti Chaouachi og Szonja Szöke inn í FH-fjölskylduna. Chaouachi er spennandi leikmaður sem verður gaman að fylgjast með í FH-treyjunni.

Við munum gera allt í okkar valdi til að hjálpa Szöke og Chaouachi til að aðlagast nýju landi og nýjum handbolta,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar FH, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert