Framarar verðskuldaðir sigurvegarar

Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta datt ekki með okkur,“ sagði Róbert Aron Hostert, fyrirliði Vals, eftir tap gegn Fram, 28:27, í þriðja leik í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Fram sér 3:0-sigur í úrslitaeinvíginu og Íslandsmeistaratitilinn.

„Þú þarft smá heppni og annað með þér en mér fannst allt vera með þeim í þessu einvígi. Framarar eru verðskuldaðir sigurvegarar og sópa okkur út úr þessu einvígi.

Við vorum allt í lagi en vorum að tapa mikið af boltum. Það er ekki hægt á móti þeim. Þeir voru betri með boltann og enduðu eiginlega alltaf á skotum,“ sagði Róbert.

Fram var að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil frá árinu 2013 en þá var Róbert leikmaður Framliðsins.

„Þetta er uppeldisfélagið mitt og það er gaman að sjá þá vera komna á þennan stað,“ sagði Róbert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert