Reynir Þór Stefánsson, leikmaður nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handbolta, var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir að Fram tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda í kvöld.
Þessi titill er sérlega sætur fyrir Reyni því hann mun nú halda á vit nýrra ævintýra og spila erlendis næsta tímabil. Mbl.is ræddi við Reyni og spurði hann út í þá tilfinningu að hafa náð þessum árangri:
„Ólýsanleg tilfinning. Að fá að fagna þessu með liðinu sínu, fólkinu sínu og stuðningsmönnum okkar. Okkur leið bara eins og við værum á heimavelli því mætingin var þannig hjá okkar fólki. Algjörlega til fyrirmyndar.“
Þið landið tveimur af þremur titlunum sem í boði voru á þessu tímabili. Þið settuð ykkur háleit markmið fyrir tímabilið og þjálfarinn ykkar var búinn að segja að Íslandsmeistaratitillinn væri eitt af markmiðunum ykkar. Það er eitt að segja og annað að gera. Hverju þakkar þú þennan árangur?
„Valsarar hentu okkur út fyrir einu ári. Þá tókum við ákvörðun um að við ætluðum að bæta á okkur 10 kg af vöðvum því við vorum of litlir og við nenntum því ekki lengur og það tókst.“
Tímabilið er búið með stórkostlegum árangri. Þú ert búinn að spila þinn fyrsta landsleik, ert Íslands- og bikarmeistari en ert nú að yfirgefa Fram. Hvert er ferðinni heitið?
„Já, þetta var síðasti leikurinn minn fyrir Fram í bili. Ætli það komi ekki í ljós bara á næstu dögum hvert ég fer,“ sagði Reynir Þór í samtali við mbl.is.