„Þegar ég var ungur unnu Framarar alltaf,“ sagði rithöfundurinn og Framarinn Einar Kárason kampakátur í samtali við mbl.is eftir að Fram varð Íslandsmeistari karla í handbolta í kvöld.
„Við tókum þetta tvöfalt. Við biðjum ekki um minna. Ég bý í Valshverfinu og þetta er svo dásamlegt. Valsararnir eru sætir, yndislegir og eru vinir okkar,“ sagði Einar og hélt áfram:
„Ég hélt við myndum tapa þessum en svo vinna upp frá en það var rangt. Einar Jónsson nafni minn lagði þetta hárrétt upp,“ sagði Einar.
Hann er ánægður með þann mikla stuðning sem Framararnir fengu í kvöld.
„Ég var líka á fyrsta leiknum og þá vorum við með miklu meiri læti í þessari flottu höll og svo aftur núna. Maður verður smá tíma að jafna sig. Manni líður vel næstu vikuna.“
Hann spáir vægast sagt bjartri framtíð hjá Fram næstu áratugina.
„Við höfum verið að fylgjast með upprisu alls staðar innan félagsins síðustu ár. Núna verðum við á toppnum næstu 40 árin og jafnvel næstu 50,“ sagði Einar.