„Við þurfum að fara yfir þetta og sjá hvort við getum breytt einhverju en staðan er slæm, það er ljóst,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari Hauka en liðið er 2:0-undir í einvíginu um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta eftir 29:22-tap á heimavelli gegn Val í kvöld.
„Fyrri hálfleikurinn var virkilega góður. Við spiluðum góðan sóknaleik og varnarleikurinn var til fyrirmyndar en við byrjum seinni hálfleik á að fara 6:1 undir og því miður eftir það var ekki aftur snúið,“ sagði Stefán en Haukar voru 13:12 yfir í hálfleik.
Seinni hálfleikur byrjaði hræðilega og liðið skoraði aðeins fimm mörk á 27 mínútum í seinni.
„Við byrjuðum að klikka á færum og þá fór hausinn og sjálfstraustið. Síðan var sóknarleikurinn erfiður og Valur spilaði frábæra vörn en slæmt hvað það er mikill munur á hálfleikjum hjá okkur.
Eftir að við byrjum að klikka þá erum við svo lítil í okkur og þú mátt aldrei láta sóknarleikinn taka vörnina. Við hættum líka að spila vörn og þá bara tapar þú fyrir Val í úrslitum, það er ekki flókið.“
Það er nóg sem liðið þarf að hugsa um fyrir næsta leik sem er sá síðasti í einvíginu ef liðið tapar. Liðið hefur sigrað Val áður en virtist hafa litla trú á verkefninu í kvöld.
„Fyrri hálfleikur var góður en við missum trúna í seinni hálfleik þegar við byrjum að klikka og við þurfum að laga það að það geta allir gert mistök í íþróttum en það er næsti bolti sem skiptir máli.“