Norski handknattleiksmaðurinn Morten Boe Linder hefur skrifað undir samning við KA um að leika með liðinu næstu tvö ár. Kemur hann frá norska félaginu Fjellhammer.
Morten er 27 ára gamall og leikur í stöðu hægri skyttu auk þess að geta leyst stöðu hægri hornamanns.
Hjá Fjellhammer lék hann undanfarin tvö ár, bæði tímabili í norsku úrvalsdeildinni. Þar á undan lék Morten með Halden í sömu deild.
„Það er ljóst að koma Mortens mun styrkja vel við okkar lið sem verður að mestu byggt upp af ungum KA strákum og er það von okkar að Morten muni aðstoða okkur í þróun þeirra auk þess að taka mikla ábyrgð í spili liðsins.
Við erum afar spennt fyrir komu hans norður og væntum mikils af þessum öfluga kappa,“ sagði meðal annars í frétt á heimasíðu KA.