Skoraði 17 mörk í jafntefli gegn Færeyjum

Elmar Erlingsson sækir að Færeyingum í dag.
Elmar Erlingsson sækir að Færeyingum í dag. Ljósmynd/IHF

Íslenska U21 landsliðið í handbolta gerði jafntefli við Færeyjar, 35:35, í F-riðli á U21 heimsmeistaramótinu í Katowice í Póllandi í dag.

Færeyjar eru á toppi riðilsins með þrjú stig en Ísland er í þriðja sæti með eitt stig. Rúmenía, sem er með tvö stig í öðru sæti, mætir Norður-Makedóníu, sem er án stiga, seinna í dag.

Mikið jafnræði var með liðunum í leiknum en Færeyjar voru með tveggja marka forystu í hálfleik, 21:19.

Íslensku strákarnir gerðu vel og komust yfir í fyrsta skiptið í síðari hálfleik þegar tvær mínútur voru eftir, 35:34. Færeyjar náðu hins vegar að jafna metin á síðustu sekúndu leiksins með marki úr vítakasti.

Elmar Erlingsson átti ótrúlegan leik en hann skoraði 17 mörk. Össur Haraldsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu sex mörk hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert