Íslenska U21 landsliðið í handbolta gerði jafntefli við Færeyjar, 35:35, í F-riðli á U21 heimsmeistaramótinu í Katowice í Póllandi í dag.
Færeyjar eru á toppi riðilsins með þrjú stig en Ísland er í þriðja sæti með eitt stig. Rúmenía, sem er með tvö stig í öðru sæti, mætir Norður-Makedóníu, sem er án stiga, seinna í dag.
Mikið jafnræði var með liðunum í leiknum en Færeyjar voru með tveggja marka forystu í hálfleik, 21:19.
Íslensku strákarnir gerðu vel og komust yfir í fyrsta skiptið í síðari hálfleik þegar tvær mínútur voru eftir, 35:34. Færeyjar náðu hins vegar að jafna metin á síðustu sekúndu leiksins með marki úr vítakasti.
Elmar Erlingsson átti ótrúlegan leik en hann skoraði 17 mörk. Össur Haraldsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu sex mörk hvor.