U21 árs landslið Íslands vann í dag flottan sex marka sigur á jafnöldrum sínum frá Norður-Makedóníu, 34:28, á heimsmeistaramótinu í Katowice í Póllandi í dag.
Ljóst var fyrir leikinn að íslenska liðið kæmist ekki áfram í milliriðla 16 liða úrslita þar sem að Færeyjar unnu stórsigur á Rúmenum fyrr í dag, 35:28. Með sigrinum tryggði íslenska landsliðið sig hinsvegar í milliriðlakeppni um sæti 17 til 24.
Færeyingar unnu riðilinn með 5 stig, Rúmenía fékk 4, Ísland 3 en Norður-Makedónía ekkert stig.
Ísland hafði yfirhöndina í öllum leiknum í dag og leiddi með einu marki í hálfleik, 15:14. Liðið tók svö öll völd á vellinum í seinni hálfleiknum og vann eins og áður segir sex marka sigur sem tryggði liðinu þriðja sætið í riðlinum.
Elmar Erlingsson var markahæstur leikmanna íslenska liðsins með níu mörk og Össur Haraldsson gerði sex. Þá var Ísak Steinsson valinn maður leiksins en hann varði 15 skot í markinu og var með 36% markvörslu.
Næsti leikur liðsins verður klukkan 12 á mánudag en þá mun liðið mæta annaðhvort Marokkó eða Mexíkó í fyrsta leik milliriðils um sæti 17 til 24.