Handknattleikskonan Tinna Valgerður Gísladóttir skrifaði um helgina undir samning við KA/Þór og leikur því með liðinu í úrvalsdeildinni á komandi tímabili.
Tinna Valgerður gekk til liðs við KA/Þór í upphafi árs á lánssamningi frá Gróttu og lék vel er Akureyrarliðið vann 1. deildina án þess að tapa leik.
Hún er 25 ára gömul örvhent skytta sem getur einnig leikið í hægra horni.
Tinna Valgerður lék með Fram frá 2021 til 2023 og bjó eftir það um skeið í Þýskalandi með kærasta sínum, Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, sem lék þá sem atvinnumaður hjá Minden og er nú leikmaður KA.