Sex íslensk handknattleikslið munu taka þátt í Evrópukeppnum á næsta tímabili. HSÍ skýrir frá þessu á samfélagsmiðlum í dag.
Þar kemur fram að Íslandsmeistarar og bikarmeistarar karla fái þátttökurétt í Evrópudeildinni.
Þar sem Fram er bæði Íslands- og bikarmeistari kemur það í hlut Stjörnunnar, silfurliðs bikarkeppninnar, að fá þátttökurétt í Evrópudeildinni. Bæði lið hafa staðfest þátttöku sína.
Íslands- og Evrópubikarmeistari kvenna, Valur, er með þátttökurétt í Evrópudeildinni og hefur staðfest þátttöku sína, þó ekki sé komið á hreint hvort liðið fái beint sæti eða þurfi að fara í gegnum undankeppni.
Þá hefur FH skráð sig til leiks í Evrópubikar karla auk þess sem Haukar og Selfoss taka þátt í Evrópubikar kvenna.