„Það er enginn sem getur orðið næsti Logi Geirs“

„Ég ræddi við stórvin minn Guðjón Val Sigurðsson þegar ég var að taka þessa ákvörðun,“ sagði handboltamaðurinn og landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi Aron Pálmarsson í Dagmálum.

Aron, sem er 34 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum eftir afar farsælan feril þar sem hann varð þrettán sinnum landsmeistari í Þýskalandi, Ungverjalandi, á Spáni og á Íslandi en hann lék alls 184 A-landsleiki og skoraði í þeim 694 mörk.

Erfitt í janúar og maí

Aron gengur sáttur frá borði en á þó von á því að það gæti reynst erfitt að fylgjast með næstu stórmótum hjá landsliðinu 

„Hann sagði við mig að þetta yrði erfitt í janúar og svo í maí þegar úrslitaleikirnir byrja,“ sagði Aron.

„Ég hugsa að það sé alveg rétt hjá honum. Auðvitað fær maður kitl, sérstaklega í janúar, því þetta er einstök tilfinning að fara á stórmót með landsliðinu, þó að þetta sé á hverju ári.

Ég mun klárlega vera límdur við skjáinn og í staðinn fyrir það að vera fyrirliði inn á vellinum þá verð ég fyrirliði heima í stofu, alveg kolvitlaus,“ sagði Aron. 

Langt í næsta mót

Er maður að fara sjá þig í sérfræðingahlutverki, verður þú næsti Logi Geirsson?

„Það er enginn sem getur orðið næsti Logi Geirs, það er einstakur maður. Ég hef ekkert pælt í því og það er langt í mót en ef að kallið kemur þarf maður að vega og meta það en ég mun klárlega horfa á þetta,“ sagði Aron meðal annars.

Viðtalið við Aron í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Aron Pálmarsson og Logi Geirsson.
Aron Pálmarsson og Logi Geirsson. Ljósmynd/Eyþór/Rúv
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert