FH og HK tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik með því að sigra Gróttu og Selfoss.
FH vann 1. deildarlið Gróttu á Seltjarnarnesi, 35:29.
Staðan í hálfleik var 21:18, FH-ingum í hag, en þeir náðu ekki að hrista Gróttumenn af sér fyrr en á lokakafla leiksins.
Ómar Darri Sigurgeirsson skoraði níu mörk fyrir FH og Garðar Ingi Sindrason sex en Bessi Teitsson skoraði átta mörk fyrir Gróttu.
HK vann Selfoss í slag úrvalsdeildarliðanna í Kórnum í Kópavogi, 27:23.
HK var yfir í hálfleik, 12:9, og var með fjögurra til fimm marka forystu nær allan síðari hálfleikinn. Selfoss minnkaði muninn í 26:23 þegar rúm mínúta var eftir en komst ekki nær.
Haukur Ingi Hauksson skoraði átta mörk fyrir HK, Leó Snær Pétursson sex og Ágúst Guðmundsson sex. Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með sjö mörk.
