ÍBV vann Hauka 20:18 á Ásvöllum í 5. umferð Íslandsmóts kvenna í handbolta í kvöld. Eftir leikinn eru Haukar með 5 stig en Eyjakonur eru með 8 stig.
ÍBV skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins áður en Haukakonur komust á blað í kvöld. Loks þegar Haukakonur hófu leik sinn formlega sást glögglega að þegar þær spiluðu af skynsemi voru þær aldrei langt undan Eyjakonum og minnkuðu muninn niður í eitt mark í stöðunni 4:3 og 5:4 fyrir ÍBV.
Haukakonur voru mjög mistækar í fyrri hálfleiknum sem kostaði liðið margar sóknir. Á sama tíma voru Eyjakonur ekki að spila sinn allra besta leik en þó það góðan að þær héldu Haukakonum fyrir aftan sig allan fyrri hálfleikinn. Mestur var munurinn á liðunum 5 mörk í stöðunni 13:8 fyrir ÍBV.
Eyjakonur skoruðu ekkert mark síðustu 5 mínútur fyrri hálfleiks á meðan Haukakonum tókst að skora 2 og minnka muninn niður í 3 mörk í stöðunni 13:10 fyrir ÍBV.
Besti leikmaður Hauka í fyrri hálfleik var Sara Sif Helgadóttir en hún varði 7 skot, þar af eitt vítaskot. Embla Steindórsdóttir skoraði 3 mörk fyrir Hauka, þar af eitt úr víti í fyrri hálfleik.
Hjá Eyjakonum varði Amalie Fröland 2 skot. Þær Birna Berg Haraldsdóttir, Alexandra Ósk Viktorsdóttir og Sandra Erlingsdóttir skoruðu allar þrjú mörk fyrir ÍBV í fyrri hálfleik.
Haukar héldu áfram að gera klaufaleg mistök í sóknarleik sínum og náðu ekki að notfæra sér talsvert af mistökum Eyjakvenna fyrir vikið. Haukakonum tókst að minnka muninn niður í 2 mörk þegar 10 mínútur voru til leiksloka í stöðunni 17:15 og gátu minnkað muninn niður í eitt mark.
Þá komust Haukakonur í galopið dauðafæri á línunni og gátu minnkað muninn í eitt mark en skotið endaði í stöng. Má segja að þetta hafi verið lýsandi fyrir leik Hauka í kvöld þar sem nánast allt var stöngin út.
Eyjakonur skoruðu síðan tvö mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir og leiknum í raun lokið.
Eftir þetta mátti sjá uppgjöf í liði Hauka og náðu Eyjakonur 5 marka forskoti í leiknum í stöðunni 20:15. Reyndu Haukakonur hvað þær gátu til að saxa niður forskot Eyjakvenna og enduðu leikar.
Ragnheiður Ragnarsdóttir skoraði 4 mörk fyrir Hauka og varði Sara Sif Helgadóttir 12 skot, þar af 2 vítaskot.
Sandra Erlingsdóttir skoraði 7 mörk fyrir ÍBV og var eitt þeirra úr víti. Amalie Fröland varði 9 skot.