Predrag Boskovic varaforseti Handknattleikssambands Evrópu var handtekinn á mánudaginn og hefur verið yfirheyrður af þar til gerðum yfirvöldum í heimalandi sínu, Svartfjallalandi.
Vefsíðan handbolti.is greindi frá málinu í gær.
Boskovic er grunaður um tengsl við glæpasamtök. Rannsókn á málinu stendur yfir hjá lögreglu, en samkvæmt nýjustu fregnum var Boskovic látinn laus í dag, en óvíst er um framhaldið.
Hinn 53 ára gamli Boskovic var forseti handknattleikssambands Svartfjallalands um sex ára skeið áður en hann var kjörinn annar varaforseti Handknattleikssambands Evrópu og þá á hann einnig sæti í framkvæmdastjórn Alþjóða handknattleikssambandsins.
Í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Evrópu segir að lögreglurannsóknin hafi ekki áhrif á störf eða stöðu Boskovic innan sambandsins, allavega ekki enn sem komið er.
Boskovic hefur einnig tekið þátt í stjórnmálastarfi í heimalandinu sínu og var ráðherra frá 2005 til 2020, síðast varnarmálaráðherra frá 2016 til 2020. Frá árinu 2023 hefur flokkur hans verið í stjórnarandstöðu.
