Enn handbolti í þessum skrokki

Kári Kristján Kristjánsson.
Kári Kristján Kristjánsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það var heldur betur dramatík í lok leiks FH og Þórs í Kaplakrika í kvöld þegar liðin gerðu 34:34 jafntefli í Íslandsmóti karla í handbolta. Þór var í lykilstöðu um að vinna leikinn þegar liðið var 34:33 yfir í leiknum og nokkrar sekúndur eftir, en liðið var mest 8 mörkum undir í seinni hálfleik í stöðunni 24:16.

Einn af máttarstólpum íslensks handbolta, Kári Kristján Kristjánsson, skoraði 5 mörk fyrir lið sitt Þór og nokkur þeirra á gríðarlega mikilvægum tímapunktum. Má þar helst nefna jöfnunarmark Þórs í stöðunni 33:33.

Það lá því beinast við að benda línumanninum á að hann væri ekki dauður úr öllum æðum á sama tíma og hann var spurður úr í leikinn í kvöld.

„Það er enn þá handbolti eftir í þessum skrokki. Ég vissi það alveg og það vissu það örugglega allir aðrir líka,“ sagði Kári Kristján og hélt síðan áfram:

„En við vorum mest 8 mörkum undir hérna í seinni hálfleik og Oddur kemur hérna fyrir utan og við náum að spila hérna í seinni hálfleik svo ég sletti hérna Vagg og veltu handbolta eða handbolta 101. Það gekk bara vel, ótrúlega vel bara.

Við héldum tæknifeilunum alveg í lágmarki á meðan við vorum að vinna niður forskot FH og vorum held ég bara með 2-3 tæknifeila allan seinni hálfleikinn. Það munaði ótrúlega miklu eftir í raun hræðilegan fyrri hálfleik hjá okkur.

Síðan fengum við smá markvörslu í lokin ásamt mörkum frá markverðinum okkar sem kveikti heldur betur í okkur. Þetta gekk eiginlega allt upp síðustu 10-12 mínúturnar og við hefðum svo sannarlega getað unnið leikinn.“

Mikilvægasta í þessu

Ég verð að viðurkenna að um miðjan síðari hálfleik var ég búinn að afskrifa Þór í leiknum og segi orðrétt að nú sé róðurinn orðinn ansi þungur fyrir Þórsara. Getur þú útskýrt það fyrir amatör eins og mér hvernig lið sem er nýkomið upp úr næstefstu deild kemst að því að vinna upp 8 marka forskot deildarmeistara síðasta tímabils í seinni hálfleik á þeirra heimavelli?

„Við náum bara að hitta á þetta með því að vera yfirvegaðir, spila breitt á völlinn og það skipti líka máli hvað Oddur var frábær. Hann kom bara með fleiri liti inn í litapallettuna hjá okkur. Eigum við ekki bara að segja að við misstum aldrei haus. Það var það mikilvægasta í þessu. Líka gaman að sjá hvað við náum að rúlla liðinu mikið og við erum 20 sekúndum frá því að klára leikinn.“

Ertu svekktur yfir því að þið hafið hreinlega ekki unnið leikinn?

„Já, alveg hrikalega. En þrátt fyrir það þá endaði boltinn þar sem við vildum að hann endaði þarna í lokin þrátt fyrir þennan vítadóm sem ég þarf nú að skoða aðeins betur. Það var líka gott. Það er margt spunnið í okkur myndi ég segja.“

Næsti leikur er á móti HK. Ég geri ráð fyrir að Þór fari í þann leik til að spyrna sér aðeins ofar í töflunni, ekki satt?

„Jú, alveg klárlega. Full íþróttahöll á Akureyri. Þorpið alveg kolvitlaust og ég er mjög spenntur fyrir þeim leik,“ sagði Kári Kristján í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert