Selfoss vann spennandi botnslag

Hulda Hrönn Bragadóttir lék vel fyrir Selfoss.
Hulda Hrönn Bragadóttir lék vel fyrir Selfoss. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Selfoss náði í sín fyrstu stig í úrvalsdeild kvenna í handbolta í kvöld þegar liðið fékk Stjörnuna í heimsókn. Selfoss sigraði 29:28 eftir spennutrylli og skildi Stjörnuna þar með eftir á botni deildarinnar án stiga.

Það er óhætt að segja að það hafi verið jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik en það var jafnt á öllum tölum fyrstu 28 mínútur leiksins. Markvarslan var í lágmarki en liðin sýndu virkilega fína spretti í sókninni. Selfyssingum gekk illa að stöðva Natasju Hammer og hinu megin á vellinum var hin norska Mia Kristin Syverud aðsópsmikil.

Það var ekki fyrr en á lokamínútum fyrri hálfleiks að eitthvað skildi liðin að, Selfoss skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og leiddi 14:12 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn var æsispennandi allt þar til lokaflautið gall. Selfoss hafði frumkvæðið lengst af og leiddi með 1 til 2 mörkum. Síðustu tíu mínúturnar var hins vegar jafnt á öllum tölum og úrslitin réðust ekki fyrr en Ída Bjarklind Magnúsdóttir hamraði boltann í netið þegar átta sekúndur voru eftir og tryggði Selfyssingum sigurinn.

Mia Kristin Syverud var frábær í liði Selfoss í kvöld, hún keyrði grimmt á Stjörnuvörnina allan leikinn, skoraði grimmt og skapaði fyrir liðsfélaga sína. Þegar mest á reyndi var það Ída Bjarklind sem steig upp, hún skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum Selfoss, hvert öðru glæsilegra.

Stjörnukonur eru eflaust svekktar að fá ekkert út úr leiknum því þær áttu það svo sannarlega skilið. Inga Maria Roysdóttir og Aníta Björk Valgeirsdóttir voru mjög öflugar, bæði í vörn og sókn og röðuðu inn mörkum í seinni hálfleiknum.

Syverud var markahæst hjá Selfyssingum með 8/1 mark og hjá Stjörnunni skoraði Aníta Björk 7/4 og Inga María og Natasja 6. Markverðir liðanna voru ekki í yfirvinnu í kvöld. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 8/1 skot í marki Selfoss og Margrét Einarsdóttir 4 fyrir Stjörnuna.

Selfoss 29:28 Stjarnan opna loka
60. mín. Ída Bjarklind Magnúsdóttir (Selfoss) skoraði mark Selfoss fær aukakast þegar 8 sekúndur eru eftir og sendingarnar búnar. Stilla upp fyrir Ídu sem hamrar boltanum í netið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert