Stjarnan upp í þriðja sæti

Ísak Logi Einarsson átti stórleik.
Ísak Logi Einarsson átti stórleik. mbl.is/Karítas

Stjarnan fór upp í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í handbolta með sigri á Selfossi, 36:33, á útivelli í sjöttu umferðinni í kvöld. Stjarnan er með sjö stig og Selfoss í sjöunda sæti með fimm. 

Stjörnumenn voru ekki að heilla framan af leik. Selfyssingar voru betri bæði í vörn og sókn, Valdimar Örn Ingvarsson fór mikinn inni á línunni og Alexander Hrafnkelsson lokaði vel í markinu. Gestirnir rifu sig þó heldur betur í gang þegar rúmt korter var liðið, söxuðu niður þriggja marka forskot Selfoss og tóku frumkvæðið í leiknum. Staðan í hálfleik var 14:16.

Það var boðið upp á dúndrandi sóknarbolta í seinni hálfleiknum. Leikurinn var í járnum framan af og Selfyssingar náðu að jafna 25:25 þegar korter var eftir. Í kjölfarið töpuðu þeir vínrauðu boltanum þrjár sóknir í röð og Stjarnan náði fimm marka forskoti. Heimamenn áttu ekki afturkvæmt eftir það. Smá vonarneisti kviknaði í blálokin en þá steig Stjörnuvörnin upp og þétti raðirnar. 

Annars hafði varnarleikurinn verið settur alveg til hliðar á köflum hjá báðum liðum og Selfyssingar réðu ekkert við Ísak Loga Einarsson og Hans Jörgen Ólafsson sem báru uppi sóknarleik gestanna. Ísak var tekinn úr umferð í blálokin, allt of seint þegar leikurinn var að renna úr greipum Selfyssinga. 

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 11/3 mörk og Valdimar Örn skoraði 6, þar af 5 í fyrri hálfleik. Hjá Stjörnunni skoraði Ísak Logi 10 mörk og Hans Jörgen 9. 

Markverðir liðanna voru flottir í fyrri hálfleiknum en klukkuðu varla bolta í þeim síðari. Alexander Hrafnkelsson varði 9/2 skot í marki Selfoss og Sigurður Dan Óskarsson 9 skot í marki Stjörnunnar.

Mbl.is var í Set-höllinni og fylgdist með gangi mála í beinni textalýsingu sem sjá má hér að neðan.

Selfoss 33:36 Stjarnan opna loka
60. mín. Sigurður Dan Óskarsson (Stjarnan) varði skot Frá Jason í horninu. Leik lokið hér í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka