Það var sannkallaður botnslagur í Íslandsmóti karla í handbolta í kvöld þegar HK vann ÍR, 30:28, í 6. umferð úrvalsdeildarinnar. Eftir leikinn er HK með 4 stig í tíunda sætinu en ÍR-ingar eru áfram á botninum með aðeins 1 stig.
HK-menn náðu undirtökunum strax á fyrstu mínútum leiksins. Náðu þeir 3 marka forskoti í stöðunni 6:3 en þá gerðu ÍR-ingar sig líklega til að gera leikinn að spennuleik með því að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 7:6. Fengu ÍR-ingar tækifæri til að jafna leikinn en í stað þess komust HK-ingar 8:6 yfir og byggðu upp 5 marka forskot í stöðunni 11:6.
ÍR-ingar náðu að klóra í bakkann og saxa niður forskot HK-inga áður en að hálfleiksflautið gall og var staðan í hálfleik 12:9 fyrir HK og munurinn 3 mörk á liðunum.
Það var allt annað uppi á teningnum í byrjun seinni hálfleiks. ÍR-ingar mættu dýrvitlausir inn í seinni hálfleikinn og jöfnuðu leikinn í stöðunni 12:12. ÍR-ingar gerðu gott betur því þeir settust í bílstjórasætið og náðu forskoti í stöðunni 13:12 og gerðu síðan enn betur og komu ÍR tveimur mörkum yfir í stöðunni 15:13.
HK-menn gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn í stöðunni 15:15. Ágúst Guðmundsson skoraði síðan fyrir HK í næstu sókn eftir að ÍR-ingar höfðu klikkað á sinni og staðan 16:15 fyrir HK þegar 18 mínútur voru eftir af leiknum.
ÍR-ingar jöfnuðu leikinn í 16:16 en þá komu þrjú mörk í röð frá HK-ingum og á sama tíma hrökk Róbert Örn Karlsson aftur í gang í marki HK og hóf að verja aftur.
HK-ingar náðu 5 marka forskoti í stöðunni 22:17 og var öll sú vinna sem ÍR-ingar höfðu lagt á sig til að jafna og komast yfir farin fyrir bý að því er virtist.
ÍR-ingum tókst að minnka muninn niður í 2 mörk í stöðunni 23:21 fyrir HK en þá varði Róbert Örn Karlsson einfaldlega nokkur skot og HK-ingar juku muninn aftur í 4 mörk í stöðunni 25:21 og þá tóku ÍR-ingar leikhlé.
HK-ingum tókst að halda forskoti sínu út leikinn og náðu ÍR-ingar aldrei að komast nær því að jafna en í stöðunni 29:27 fyrir HK sem vann að lokum sanngjarnan sigur.
Leó Snær Pétursson skoraði 7 mörk fyrir HK og kom eitt þeirra úr víti. Róbert Örn Karlsson varði 17 skot, þar af 2 vítaskot.
Hjá ÍR var Jökull Blöndal Björnsson með 10 mörk og komu 3 þeirra úr vítum. Ólafur Rafn Gíslason var frábær í marki ÍR og varði 15 skot.