Haukar völtuðu yfir Eyjamenn í Vestmannaeyjum í dag í sjöttu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik.
Lokatölur urðu 39:29 fyrir Hauka en leikurinn var eign gestanna frá upphafi til enda. Eyjamenn köstuðu frá sér góðri stöðu í bikarnum í miðri viku í Mosfellsbæ og virtust taka það með sér inn í leik dagsins.
Erlingur Richardsson, þjálfari liðsins, spjallaði við blaðamann mbl.is eftir leik.
„Fyrst og fremst varnarlega, baráttuleysi og andrúmsloftið. Þeir voru klárari, tilbúnir að berjast og tóku vel á okkur, við hurfum í skelina,“ sagði Erlingur þegar hann var spurður að því hvar þetta hafi farið úrskeiðis hjá hans mönnum í dag, en af hverju gerðist það?
„Það er stóra spurningin, það er það sem við þurfum að kryfja núna, við þurfum að ýta við þessum Eyja-baráttuanda og við erum kannski bara orðnir of mjúkir og of hræddir. Hræddir við að það sé verið að taka á okkur en ekki hinum og allt svoleiðis, en það skiptir ekki neinu máli og við þurfum að fara að taka upp boxhanskana og vera svolítið með í þessu.“
Eyjamenn spiluðu bikarleik í vikunni við Mosfellinga þar sem liðið lék frábærlega framan af en áttu síðan hræðilegan kafla undir lok leiksins eir virtust taka það með sér inn í leik dagsins.
„Svo veit maður ekki líka, það kom aðeins á hópinn í gær, í þessu slysi í boði HSÍ, að Daníel skyldi detta út. Ég held að það hafi komið aðeins við hópinn og við ekki haft mikinn tíma til að bregðast við því, hann er búinn að vera lykilmaður í okkar varnarleik og slíkt, kannski var það aðeins of mikið sjokk,“ sagði Erlingur en Daníel Þór Ingason meiddist í gær við upptöku á markaðsefni fyrir úrvalsdeildina, samkvæmt heimildum blaðamanns.
Eyjamenn tóku leikhlé í dag í stöðunni 10:16, þá voru Haukar búnir að hitta mark Eyjamanna 21 sinni en Eyjamenn einungis komið 12 skotum á mark gestanna. Hver heldur Erlingur að sé skýringin á því að Eyjamenn ná ekki að enda fleiri sóknir með skot á markið en raun ber vitni?
„Þeir voru klárari og tóku vel á okkur, við vorum í vandamálum aðeins, við förum samt inn með 13 mörk, þrátt fyrir sjö tæknifeila í fyrri hálfleik, við fengum líka á okkur 20, frekar auðveld mörk fannst mér þegar þeir voru að ná að keyra undir bakverðina hjá okkur. Það hvarf í seinni hálfleik en þá komu bara önnur spil hjá þeim.“
Eyjamenn spila stóran kafla leiksins með fjóra stráka fædda 2007 inni á vellinum, þá Andra Magnússon og Hauk Leó Magnússon í hornunum og þá Andra Erlingsson og Elís Þór Aðalsteinsson fyrir utan. Hver var hugsunin á bakvið það?
„Þessir strákar eru búnir að vera okkar lykilleikmenn fram að þessu, það er ekkert launungarmál, auðvitað er þetta ungur og brothættur hópur en þess vegna þurfum við allir að allavega fara inn í leikinn með baráttu og leikgleði og slíkt. Það voru sex 3. flokks leikmenn í dag á skýrslu og allir taka þátt í leiknum, þetta er líka smá reynsluleysi hjá okkur á þeim tíma, þetta er margt í bland.“
Haukar voru snemma komnir með átta markaskorara en Eyjamenn voru bara með fjóra þegar liðin gengu inn til búningsherbergja, var það vandamál?
„Að sama skapi brenndum við líka af færum, bæði úr hraðaupphlaupi og úr hornunum, þeir gátu alveg skorað. Kristófer kom síðan mjög vel inn í seinni hálfleiknum, hann hjálpaði okkur að fá mörk að utan. Samt sem áður virkjum við allan hópinn í leiknum, það er samt auðvitað hægt að fá fleiri til þess að skora.“
Það hafa tvö áföll dunið á liðið á síðustu dögum, fyrst tapið í bikarnum gegn Aftureldingu en bikarhelgin er oftar en ekki stærsta helgi ársins í íþróttalífinu í Vestmannaeyjum og síðan meiðsli Daníels Þórs í gær. Hvernig heldur Erlingur að hópurinn muni bregðast við?
„Það er verkefni vikunnar, það er að reyna að þétta andrúmsloftið og byggja upp liðsheildina. Við þurfum að skoða hvernig við getum stillt varnarleikinn og allt svoleiðis. Við þurfum bara að sjá hvað kemur út úr niðurstöðum, HSÍ hlýtur að sjá til þess að hann fái rétta meðhöndlun og sem fyrst,“ sagði Erlingur að lokum um Daníel Þór og hans meiðsli.