Haukar unnu góðan tíu marka sigur á ÍBV, 39:29, í sjöttu umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í dag.
Haukar eru með 10 stig og deila toppsætinu með Aftureldingu. ÍBV er í sjötta sæti með 6 stig.
Sigurinn var aldrei í hættu en forysta gestanna var sjö mörk, 20:13, í hálfleik. Haukar réðu ágætlega við sóknarleik ÍBV og sundurspiluðu vörn ÍBV sem leit oft á tíðum ansi illa út.
Birkir Snær Steinsson skoraði tíu mörk fyrir gestina, flest í seinni hálfleik þar sem hann lék við hvurn sinn fingur. Elís Þór Aðalsteinsson skoraði tíu mörk hjá heimamönnum, rúman helming þeirra af vítalínunni.
Markvarslan hjá Eyjamönnum var lítil og vörnin ekki mikið skárri en hjá Haukunum steig Magnús Gunnar Karlsson vel upp þegar Haukar þurftu á honum að halda en vörn Hauka var mjög góð.