Alltaf skemmtilegt að spila við Færeyjar

Elín Klara Þorkelsdóttir fyrir æfingu í Framhúsinu í dag.
Elín Klara Þorkelsdóttir fyrir æfingu í Framhúsinu í dag. Ljósmynd/Hulda Margrét

„Þetta leggst mjög vel í okkur. Það er stuttur undirbúningur fyrir þennan leik en við fengum náttúrlega æfingaviku í september og leik í Danmörku sem við nýttum vel. Það var góð reynsla sem við tökum með okkur inn í leikinn,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrir æfingu í Framhúsinu í dag.

Ísland mætir Færeyjum í fyrstu umferð fjórða riðils undankeppni EM 2026 í Framhúsinu klukkan 18 annað kvöld.

„Við erum mjög spenntar. Við erum að mæta Færeyjum hérna í fyrsta leik og þær eru með mjög sterkt lið og hafa verið mjög vaxandi. Þetta verður hörkuleikur,“ bætti Elín Klara við.

Ísland hefur mætt Færeyjum allnokkrum sinnum á undanförnum árum en hún kvaðst ekki þreytt á því að mæta frændþjóð okkar.

„Mér finnst einhvern veginn alltaf skemmtilegt að spila við þær. Hraður bolti og svona. Þannig að nei, við erum ekkert þreyttar á því. Það er bara skemmtilegt. Við tökum þessu og erum spenntar fyrir þessu.“

Frábært að fá tvo alvöru leiki

Í lok nóvember tekur Ísland þátt á HM 2025 og finnst Elínu Klöru það vera góðs viti að fá keppnisleiki til undirbúnings fyrir mótið.

„Já, algjörlega. Það er frábært að fá tvo alvöru leiki fyrir mótið og ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir liðið. Færeyjar eru með flott lið og Portúgal líka. Það verður gott að spila þessa leiki.

Auðvitað hugsum við að þetta sé undirbúningur fyrir næsta stórmót en líka undankeppni fyrir mótið á eftir, þannig að það er líka mikilvægt. Það er gaman að spila heima á Íslandi og við mætum á fullu gasi,“ sagði hún.

Skemmtilegt en krefjandi í Svíþjóð

Elín Klara skipti í sumar frá Haukum til Sävehof í Svíþjóð. Spurð hvernig fyrstu mánuðirnir hafi verið hjá henni sagði Elín Klara:

„Þeir hafa verið skemmtilegir en á sama tíma krefjandi. Það eru fullt af krefjandi hlutum utan handboltans líka en handboltinn er geggjaður.

Það er mjög skemmtilegt og tekið vel á móti mér. Klúbburinn er mjög flottur og ég er mjög ánægð. Þetta hefur farið vel af stað. Ég er spennt að halda áfram.“

Hún hefur farið frábærlega af stað með liðinu og viðurkenndi að það hjálpi vissulega til.

„Já, auðvitað. Það hjálpar ef manni líður betur en það er bara að halda áfram. Þetta hefur gengið vel hingað til og maður þarf bara að halda stöðugleika og sínu striki,“ sagði Elín Klara að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert