„Þetta eru svakaleg stykki en þetta var skemmtilegt,“ sagði Ívar Logi Styrmisson leikmaður Fram í samtali við mbl.is eftir tap gegn Porto, 38:26, í Evrópudeildinni í Úlfarsárdal í kvöld.
„Mér fannst við heilt yfir góðir í fyrri hálfleik en við hefðum mátt nýta færin okkar betur. Varnar- og sóknarleikurinn var flottur.
Í seinni hálfleik tóku gæðin yfir hjá þeim. Við misstum þetta of langt frá okkur, en annars er ég sáttur,“ sagði hann um leikinn.
Ívar hefur undanfarin ár spilað sem vinstri hornamaður en honum tókst mjög vel til á miðjunni í kvöld og var besti leikmaður Fram.
„Þetta er aðeins öðruvísi á miðjunni en það var skemmtilegt að rifja upp taktana. Ég var á miðjunni hjá ÍBV og Gróttu og við erum í smá meiðslavandræðum.
Við ákváðum að prófa sjö á sex og nota mig á miðjunni og ég tók þeirri hugmynd opnum örmum. Svo lengi sem ég er inni á, þá er ég ánægður.“
Mikið álag verður á Fram næstu vikur, þar sem spilað verður þétt í úrvalsdeildinni og Evrópudeildinni sömuleiðis.
„Mér finnst það skemmtilegt. Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila handbolta og þetta er eins og að fá úrslitakeppni fyrir og eftir áramót,“ sagði Ívar.