„Þetta er risastórt verkefni,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram í handbolta, í samtali við Morgunblaðið um leik liðsins við Porto frá Portúgal í Evrópudeildinni sem flautaður verður á klukkan 18.45 á heimavelli Fram í Úlfarsárdalnum í kvöld.
Leikurinn er sá fyrsti hjá Fram í keppninni en Íslands- og bikarmeistararnir fóru beint í riðlakeppnina.
„Það er langt síðan Fram var í alvöru Evrópukeppni karlamegin. Þetta er risastórt fyrir okkur og það er mikil tilhlökkun hjá öllum. Það er draumur að byrja á Porto, stærsta liðinu í riðlinum,“ bætti Einar við.
Hann á von á erfiðum leik gegn sterku liði.
„Þetta er hrikalega sterkt lið sem tapaði með einu marki gegn Sporting á útivelli. Sporting er að spila í Meistaradeildinni og Porto gæti spilað þar. Þetta er eitt sterkasta liðið í keppninni. Við ætlum að njóta þess að spila þennan leik og gera betur en við höfum verið að gera í deildinni heima.
Ég vona að menn hafi verið að bíða eftir því að fá þennan leik til að blómstra. Við þurfum að eiga okkar allra besta leik til að vinna Porto. Það er hugur í strákunum og ég hef trú á því að við getum að minnsta kosti strítt þeim eitthvað.“
Þorsteinn Leó Gunnarsson leikur með Porto og Einar er hrifinn af landsliðsmanninum stóra og stæðilega.
„Ég hef alltaf verið hrifinn af honum. Hann er frábær leikmaður og var algjört skrímsli hérna heima áður en hann fór út. Hann er í þokkalega stóru hlutverki hjá Porto og ég reikna með að hann vilji sýna sig.“
Einar hvatti svo Framara til að fjölmenna á leikinn.
„Þetta er kjörið tækifæri til að fylla höllina. Þetta er stærsti einstaki leikur sem hefur verið spilaður í þessu húsi og stærsti leikurinn sem Fram hefur spilað í mörg ár. Ég vona að sem flestir komi og sjái okkur mæta alvöruliði. Það er um að gera að mæta, fá sér borgara og bjór og njóta með okkur,“ sagði Einar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
