Þetta var ótrúlega gaman

Þorsteinn Leó Gunnarsson með boltann í leiknum í kvöld.
Þorsteinn Leó Gunnarsson með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Karítas

Þorsteinn Leó Gunnarsson átti fínan leik fyrir Porto frá Portúgal er liðið sigraði Fram, 38:26, í 1. umferðinni í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í Úlfarsárdal í kvöld.

Þorsteinn kom með Porto til að leika við Val í sömu keppni fyrir ári síðan og þá gerðu liðin jafntefli.

„Við unnum leikinn og það er mun skemmtilegra en að gera jafntefli. Það var gaman að koma hingað í góða stemningu og umgjörð sem kom á óvart. Þetta var ótrúlega gaman,“ sagði Þorsteinn við mbl.is og hélt áfram:

„Við vorum með þetta allan leikinn þótt gæðin hafi ekki verið til staðar allan leikinn. Við eigum að vera miklu betra lið og kláruðum þetta sem liðsheild.“

Þorsteinn, sem er 22 ára, hefur bætt sig mikið síðan hann fór til Porto frá Aftureldingu. „Ég finn að ég er orðinn miklu sterkari og verð sterkari með hverjum deginum,“ sagði hann.

Porto-treyjur voru áberandi í stúkunni í Úlfarsárdalnum í kvöld. „Það var ótrúlega gaman. Ég fæ góðan stuðning frá fjölskyldu og vinum,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert