Enginn að vanmeta Færeyjar í dag

Hafdís Renötudóttir ræðir við mbl.is eftir leik.
Hafdís Renötudóttir ræðir við mbl.is eftir leik. mbl.is/Karítas

„Þetta var geðveikt svekkjandi,“ sagði markvörðurinn Hafdís Renötudóttir, besti leikmaður Íslands, í tapinu gegn Færeyjum, 24:22, í undankeppni EM í handbolta í Úlfarsárdal í kvöld.

„Við áttum svo mikið inni í vörn og sókn. Mér líður eins og við misstum gott tækifæri úr greipum okkar til að vinna á heimavelli,“ bætti hún við.

Færeyska liðið er býsna gott en Hafdís vildi gera betur á heimavelli.

Hafdís einbeitt í kvöld.
Hafdís einbeitt í kvöld. mbl.is/Karítas

„Þetta er rosalega gott lið. Það er enginn að vanmeta Færeyjar í dag. Þetta er gullaldarlið karla- og kvennamegin hjá þeim.

Við náðum að nýta okkar góðu kafla til að jafna leikinn en svo náðum við ekki að taka fram úr þeim. Við þurfum að nota þetta til að kveikja í okkur fyrir Portúgal á sunnudaginn.“

Hafdís var sátt með eigin spilamennsku en það dugði því miður ekki í kvöld. Hún varði 15 skot, þar af tvö víti.

„Það er alltaf gaman að spila vel en maður er í þessu í að vinna. Það er ekki til góður leikur ef liðið tapar,“ sagði hún.

Rífum okkur í gang

Rúmur mánuður er í að Ísland hefur leik á HM í Þýskalandi en Hafdís hefur ekki áhyggjur þrátt fyrir tap.

„Ég hef ekki áhyggjur. Reynslan segir okkur að við rífum okkur í gang eftir skelli. Það er gott að fá sólina í Portúgal strax á morgun og stutt í næsta leik,“ sagði Hafdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert