Fylltist miklu stolti í þjóðsöngnum

Leikmenn Íslands gáfu ungum stuðningsmönnum áritanir eftir leik. Það glittir …
Leikmenn Íslands gáfu ungum stuðningsmönnum áritanir eftir leik. Það glittir í Lovísu lengst til vinstri. Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Það er mikill heiður og ég fylltist miklu stolti í þjóðsöngnum. Það var fallegt augnablik og mjög gaman,“ sagði Lovísa Thompson, landsliðskona í handbolta, í samtali við mbl.is í kvöld eftir tap gegn Færeyjum, 24:22, í undankeppni EM.

Lovísa var að spila sinn fyrsta landsleik í um þrjú ár en hún glímdi við erfið meiðsli á tímabili og tók sér hlé frá handbolta um tíma sömuleiðis. Því miður fyrir Lovísu tókst Íslandi ekki að sigra í endurkomunni.

„Þetta var erfitt í kvöld en það voru góðir kaflar. Þetta var mjög kaflaskipt. Þær eru ótrúlega kvikar á fótunum, eins og við vissum. Við hefðum mátt bregðast betur við og klukka þær betur. Það skildi að.

Það hefði verið gott að ná að nýta okkar kafla betur, ná einhverju forskoti og fá auðveldari mörk. Það gekk ekki nógu vel að keyra í bakið á þeim, því við fengum bæði vörn og markvörslu,“ sagði hún.

Lovísa spilaði lítið í kvöld og ef ofanritaður man rétt spilaði hún einungis vörn.

„Ég bjóst svo sem við þessu. Ég hef bara mætt á tvær æfingar og var að spila alls konar hlutverk í vörninni. Maður vill alltaf spila meira en ég þarf að gefa þessu tíma. Ég er ný í þessu hlutverki.

Ég er í þessu til að spila, auðvitað. En ég er liðsmaður á bekknum líka, er að peppa og kem með punkta þegar ég get. Það er skemmtilegt og öðruvísi hlutverk. Það er þroskandi,“ sagði Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert