Elín Klara Þorkelsdóttir var skiljanlega svekkt þegar hún ræddi við mbl.is í kvöld enda nýbúin að tapa með íslenska landsliðinu gegn því færeyska í undankeppni EM í Úlfarsárdal í kvöld. Leikurinn endaði 24:22.
„Við sköpuðum okkur fullt af góðum færum en nýttum þau illa og það er alltaf erfitt. Þetta kom svo aðeins en við erum einhvern veginn að elta allan leikinn.
Við jöfnuðum en svo fengum við alltaf mörk á okkur. Við vorum líka með allt of marga tapaða bolta. Það var ólíkt okkur,“ sagði hún.
Færeyska liðið er gott en Elín benti réttilega á að Ísland á að geta unnið frændþjóðina.
„Þær eru drullugóðar en við eigum að geta unnið þær. Við þurfum að setja hausinn upp og gera betur á móti Portúgal. Ég er rosalega glöð að það sé stutt í næsta leik.
Svona er boltinn stundum. Við skoðum leikinn, þéttum hópinn og komum sterkari til baka,“ sagði Elín en Ísland leikur við Portúgal í næsta leik í riðlinum á sunnudag.
