„Vonandi að þeim líði vel“

Elín Rósa Magnúsdóttir fyrir æfingu í gær.
Elín Rósa Magnúsdóttir fyrir æfingu í gær. Ljósmynd/Hulda Margrét

„Við erum bara spenntar að takast á við þetta verkefni og fá vonandi smá sjálfstraust fyrir næsta mót. Þetta er svolítið breyttur hópur þannig að það er mjög gott að fá svona alvöru leiki,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrir æfingu í Framhúsinu í gær.

Ísland mætir Færeyjum í fyrstu umferð fjórða riðils undankeppni EM 2026 í Framhúsinu klukkan 18 í kvöld.

Eins og Elín Rósa nefndi hefur mikill fjöldi reyndra leikmanna helst úr lestinni á undanförnum mánuðum.

„Já akkúrat og svona reynsluboltar, svolítið mikilvægir leikmenn sem við erum að missa út en þá koma náttúrlega aðrir inn. Það hefur bara gengið vel, frábærar stelpur sem eru að koma inn í þetta.

Maður veit alveg hversu erfitt það er að koma inn í hópinn. Það er stutt síðan maður var sjálfur þar. Það er vonandi að þeim líði vel og þær fái sjálfstraust líka í þessum leikjum,“ sagði hún um breytingarnar á leikmannahópnum.

Mikill uppgangur í Færeyjum

Spurð út í færeyska liðið sagði Elín Rósa:

„Þær eru með frábæra leikmenn. Eins og við höfum upplifað á síðustu árum er líka mikill uppgangur í Færeyjum, bæði karla- og kvennamegin. Þær eru til dæmis margar að spila í Danmörku, sem er ein sterkasta deildin.

Þetta verður ekki auðvelt. Það eru kannski margir svolítið svipaðir leikmenn sem eru góðir í einn á einn stöðum og láta boltann ganga vel. Við þurfum að vera duglegar að loka á þær.“

Stuðningur frá íslensku samherjunum

Hún skipti frá Val til Íslendingaliðs Blomberg-Lippe í þýsku 1. deildinni í sumar og líkar lífið vel í Þýskalandi.

„Fyrstu mánuðirnir hafa verið mjög góðir. Það er búið að ganga mjög vel. Við erum búnar að vinna alla leiki í deildinni hingað til. Það er ótrúlega gaman að byrja svona vel og vonandi heldur þetta áfram. Þetta er frábær hópur sem ég er að koma inn í, ég er mjög heppin með það,“ sagði Elín Rósa.

Landsliðskonurnar Andrea Jacobsen og Díana Dögg Magnúsdóttir voru fyrir hjá Blomberg-Lippe, sem hjálpar mikið til.

„Alveg 100 prósent. Það er mikill stuðningur sem maður fær við að vera með fleiri Íslendinga í hópnum. Ef maður er eitthvað óöruggur með eitthvað er maður fljótur að fá svör. Það er mjög gott,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert