„Það sem við tökum úr þessu er aðallega að bæta það að við komum ekki hérna fyrir þá hluti sem við stöndum fyrir,“ sagði Halldór Kristinn Harðarson, leikmaður Þórs, eftir stórt tap fyrir HK í Höllinni á Akureyri í úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.
„Þetta er heimavöllurinn okkar og við eigum að gera miklu betur en þetta. Bara aðeins líta inn á við og aðeins að fara að hugsa hvað, já hvernig 60 mínútur fara svona.
Því að þetta var ekki gott í dag og við eigum töluvert meira inni. Það er það sem er svona mest svekkjandi,“ bætti Halldór Kristinn við.
Er eitthvað jákvætt sem þið takið úr þessum leik?
„Ég er frekar súr eins og staðan er núna. Jákvætt? Jú, jú, við erum fínir að koma til baka en við eigum ekki að þurfa þess. Við eigum ekki að þurfa að fara í leiki og koma eitthvað til baka.
Við eigum bara að byrja almennilega og þá þarf þetta ekki að vera svona erfitt fyrir okkur. En bara hausinn upp, það er fjögurra stiga leikur næsta fimmtudag og þá þurfum við að stíga einu skrefi lengra og sýna hvað við getum,“ sagði hann að lokum.
