Þetta var aldrei í hættu

Skarphéðinn Ívar Einarsson sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. Pétur …
Skarphéðinn Ívar Einarsson sækir að marki Stjörnunnar í kvöld. Pétur Árni Hauksson fylgist með og Sigurður Dan Óskarsson stendur vaktina í markinu. mbl.is/Karítas

„Ég er ánægður með hvernig við mættum í leikinn,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Hauka í handbolta, í samtali við mbl.is eftir öruggan 30:26-heimasigur á Stjörnunni á Ásvöllum í kvöld.

Haukar náðu snemma forskoti og voru aldrei líklegir til að missa það niður.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög góður. Við fengum frá honum þá. Ég vildi betri seinni hálfleik. Það var eins og við værum að spara orkuna. Þetta var samt aldrei í hættu. Við kláruðum þetta fagmannlega.“

Haukar eru með tveggja stiga forskot á toppnum en Afturelding á leik til góða og getur jafnað Hafnarfjarðarliðið.

„Við erum þar sem við viljum vera. Við eigum nóg inni, nokkra gíra. Ég hef mikla trú á þessum strákum og við getum meira en þetta,“ sagði hann.

Haukar töpuðu fyrsta leik tímabilsins gegn Aftureldingu en hafa nú unnið sjö leiki í röð í öllum keppnum.

„Ég kom nýr inn í hópinn og lærði mikið af fyrsta leik, þar sem ég fékk eldskírn. Vandamálin komu í fangið á mér þar og við höfum unnið örugglega úr þeim,“ sagði Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert