Handboltamaðurinn Hans Jörgen Ólafsson, leikmaður Stjörnunnar, er að glíma við meiðsli og lék af þeim sökum ekki með liðinu í tapi fyrir Haukum í 7. umferð úrvalsdeildarinnar í gærkvöldi.
Í samtali við Handkastið sagði Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, að Hans Jörgen væri meiddur á ökkla og verði frá næstu vikurnar.
Meiðslalistinn hjá Stjörnunni telur orðið ansi marga leikmenn en fyrir á honum eru þeir Adam Thorstensen markvörður, Egill Magnússon, Sveinn Andri Sveinsson, Jóhannes Björgvin, Rea Barnabás og Tandri Már Konráðsson, sem verður lengi frá eftir að hafa slitið hásin.
