Handknattleiksmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson var ekki valinn í landsliðshóp Íslands í gær fyrir vináttulandsleikina gegn Þýskalandi og hann svaraði heldur betur fyrir það í dag.
Kristján skoraði 12 mörk þegar lið hans Skanderborg lagði Ringsted að velli, 33:28, í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni. Mörkin skoraði hann í 15 skotum, öll utan af velli og ekkert af vítalínunni og átti auk þess fjórar stoðsendingar í leiknum.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði fimm mörk fyrir Ringsted og Ísak Gústafsson tvö.
Skanderborg er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig, á eftir Aalborg með 16 stig og Mors með 13. Ringsted er með 5 stig í þrettánda og næstneðsta sætinu.
